Síðastliðin 34 ár hef ég rekið mitt eigið fyrirtæki, Prem ehf, sem sérhæfir sig í hönnun fatnaðar og hatta, leikmynda og búninga ásamt ráðgjöf og námskeiðahaldi.

Ég er klæðskerameistari, leikmynda- og búningahöfundur, hattahönnuður og fatahönnuður.

Ég hef unnið við allskonar hönnun fyrir leikrit og sjónvarp og fyrirtæki og einstaklinga, ásamt því að gera mikið af sniðum og frumgerðum fyrir íslenska fatahönnuði.

Frá 2012 til 2023 vann ég sem yfirtextílhönnuður og vöruhönnuður hjá Össuri HF og stofnaði þar frumgerðarsaumastofu fyrirtækisins.

Helga Rún Pálsdóttir

Ég hannaði og gerði flesta lukkudýrsbúninga landsins, t.d. Masa fyrir Söngvaborg, Georg mörgæs fyrir Íslandsbanka, Sprota fyrir Landsbankann og Klóa Kókómjólkurkött fyrir MS. Einnig gerði ég talandi vélfígúrurnar Tomma tómat og Þorra þorsk fyrir Hagkaup.

Það hefur verið skemmtilegt að vinna að mörgum ólíkum verkefnum í gegnum árin. Ég var t.d. búningahönnuður Spaugstofunnar í 13 ár, hannaði búningana fyrir Fóstbræðra þættina og hef hannað mikið af leikmyndum, leikmunum og búningum fyrir öll leikhúsin. Þar má telja bæði Þjóðleikhúsið og Borgarleikhúsið, Íslensku Óperuna ásamt kvikmyndum um Jón Sigurðsson og Jónas Hallgrímsson. Ég vann mikið við búningahönnun fyrir innlendar og erlendar auglýsingar og hef ferðast mikið innanlands vegna þess.

Alla tíð hef ég verið með hattaframleiðslu og tekið virkan þátt í listahandverkssýningum um land allt og geri enn hatta fyrir leikhús og kvikmyndir. Ég hef sérstakt dálæti á hattahönnun og hattagerð en ég er ein af fáum sem hafa verið að framleiða hatta eftir gömlu handverksaðferðinni. Meðfram því hef ég komið að uppsetningu allskyns sýninga: minna eigin, tískusýninga, kaupstefna og stjórnaði meðal annars sýningum fyrir 50, 60 og 65 ára afmæli Félags Klæðskera- og Kjólameistara á Hótel Borg, Ráðhúsinu og Kjarvalsstöðum.

Ég hef sérstaklega gaman af því að kenna og miðla reynslu minni og þekkingu og hef alla tíð verið með ýmis hatta-, sauma- og handverksnámskeið. Námskeiðin hef ég kennt á vinnustofu minni, hjá Mími, Heimilisiðnaðarskólanum, Endurmennt HÍ, Endurmennt Tækniskólans, Saumu ehf, ýmsum kvenfélögum um landið, og fyrir starfsfólk saumastofa leikhúsanna og RÚV.